Leyfum Muhammed og fjölskyldu að vera áfram á Íslandi!

0 have signed. Let’s get to 25,000!


Við undirrituð skorum á íslensk stjórnvöld að virða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og hætta við brottvísun Muhammeds Zohair Faisal og fjölskyldu hans þann 3. febrúar. Í Pakistan bíður þeirra ekkert nema óvissa en þangað hefur drengurinn aldrei komið og foreldrarnir ekki í tíu ár. Þau hafa ástæðu til að óttast hvað tekur við þeim í Pakistan og staða barnsins verður miklu verri en hér á landi.

Muhammed er einstaklega heillandi strákur, brosmildur, hlýr og lífsglaður. Hér hefur Muhammed búið í meira en tvö ár og tengst samfélaginu sterkum böndum. Hann er búinn að eignast marga vini, leikskólafélaga á Dvergasteini og skólafélaga í Vesturbæjarskóla og Skýjaborgum. Hann talar lýtalausa íslensku, er frábær námsmaður svo eftir er tekið og hefur tekist að bræða hjörtu allra þeirra sem hafa kynnst honum. 

Barnasáttmálinn kveður á um að það sem barni er fyrir bestu skuli ávallt hafa forgang í ákvörðunum stjórnvalda. Það felur meðal annars í sér að tryggja líf barns, þroska og öryggi, óháð lagalegri stöðu eða athafna foreldra hans eða hennar.

Þegar málsmeðferð ungs barns hefur staðið yfir í  rúmlega tvö ár bera stjórnvöld ríkar skyldur gagnvart barninu, sem dvalið hefur hér stóran hluta ævi sinnar og aldrei séð heimaland foreldranna. Íslensk stjórnvöld hafa gefið það út að Ísland skuli verða besta land í heimi fyrir börn. Sýnum það í verki.