Petition Closed

Veitum Leo litla og fjölskyldu hans skjól og vernd á Íslandi

This petition had 7,777 supporters


Leo er eins og hálfs árs gamalt flóttabarn. Hann er ríkisfangslaus og er fæddur í Þýskalandi, þar sem honum og fjölskyldu hans hefur verið neitað endanlega um vernd. Faðir Leo heitir Nasr og er 26 ára, fæddur í Írak. Móðir hans heitir Sobo og er 24 ára, fædd í Íran.

Nars og Sobo neyddust til að flýja Írak vegna nokkurra þátta, en þau höfðu farið til Íraks eftir að þau giftu sig þrátt fyrir mikla andstöðu fjölskyldu Sobo, sem hélt áfram að ofsækja hjónin eftir að þau yfirgáfu Íran. Þau tilheyra bæði minnihlutahópum í Írak, en þau eru Kúrdar, auk þess sem Sobo er talin vera í viðkvæmri stöðu sem Írani í Írak. Þar að auki eru þau kristin. Þau neyddust að lokum til þess að leggja á flótta eftir að Nasr varð fyrir ofsóknum af höndum hryðjuverkahópa sem vildu fá hann til liðs við sig vegna kunnáttu hans, en Nasr er kung fu þjálfari.

Hjónin flúðu til Þýskalands þar sem þau voru í eitt ár og fjóra mánuði. Þar eignuðust þau Leo litla sem er skilgreindur sem flóttabarn þar sem hann er fæddur á flótta og er án ríkisfangs og búseturéttar. Fjölskyldan, sem mun stækka á næstunni, kom til Íslands í mars s.l. eftir að þeim hafði verið neitað endanlega um vernd í Þýskalandi og þeim var tilkynnt að þau yrðu send til heimalanda sinna. Fjölskyldunni yrði því sundrað, óvíst var hvert Leo átti að fara en ljóst var að í heimaríkjum þeirra væru þau í lífshættu.

Íslensk yfirvöld hafa neitað að taka umsókn þeirra um vernd til efnislegara meðferðar og ætla að senda þau aftur til Þýskalands á grundvelli Dyflinarreglugerðarinnar þrátt fyrir að það sé bannað samkvæmt lögum um útlendinga að senda útlending til svæðis þar sem „hann er í yfirvofandi hættu á að verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð annars vegar og hins vegar ekki þangað þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur til slíks svæðis.“

Enn og aftur ætla íslensk yfirvöld að senda fólk aftur á flótta. Enn og aftur ætla íslensk yfirvöld að brjóta á réttindum barna á flótta.

Börn teljast til sérstaklega viðkvæms hóps flóttafólks. Íslenskum yfirvöldum er skylt að hafa ávallt það sem er barni fyrir bestu í forgangi þegar teknar eru ákvarðanir um málefni þess.

„Það sem barni er fyrir bestu skal ávallt hafa forgang þegar teknar eru ákvarðanir um málefni þess.“ –Íslensk barnalög.

„Ákvörðun sem varðar barn skal tekin með hagsmuni þess að leiðarljósi.“ -Lög um útlendinga

„Varði mál samkvæmt þessum kafla barn skulu hagsmunir þess hafðir að leiðarljósi. […]Við ákvörðun sem er háð mati stjórnvalds skal huga að öryggi barns, velferð þess og félagslegum þroska og möguleika þess til að sameinast fjölskyldu sinni.“ -Lög um útlendinga

„Það sem barni er fyrir bestu skal ávallt hafa forgang þegar félagsmálastofnanir á vegum hins opinbera eða einkaaðila, dómstólar, stjórnvöld eða löggjafarstofnanir gera ráðstafanir sem varða börn.“ -Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins

„Aðildarríki skulu gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að barn sem leitar eftir réttarstöðu sem flóttamaður, eða sem talið er flóttamaður samkvæmt viðeigandi reglum og starfsháttum þjóðaréttar eða landslaga, fái, hvort sem það er í fylgd foreldra eða annarra eða ekki, viðeigandi vernd og mannúðlega aðstoð við að nýta sér þau réttindi sem við eiga og kveðið er á um í samningi þessum og öðrum alþjóðlegum löggerningum á sviði mannréttinda- eða mannúðarmála sem ríki þau er um ræðir eiga aðild að.“ -Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins

„[…]við mat á þörf á alþjóðlegri vernd skuli taka sérstakt tillit til berskjaldaðra barna.“ –Tilskipun Evrópubandalagsins nr. 2004/83/EB

Ljóst er að auk þess sem verið er að stefna foreldrum Leo í hættu með því að senda þau aftur til Þýskalands, þar sem þeim bíður endursending á svæði þar sem þau eru í hættu, þá er augljóst að enn og aftur gerast íslensk yfirvöld sek um að brjóta á réttindum barna og taka ávarðanir sem eru þeim ekki fyrir bestu, og þau skýla sér á bak við úrelta og úr sér gengna valkvæða reglugerð til þess!*

Það er Leo augljóslega ekki fyrir bestu að vera sendur aftur til Þýskalands, að vera sendur aftur á flótta, og út í þá óvissu, ótta og óöryggi sem bíður hans og foreldra hans. Við skorum á íslensk yfirvöld að virða mannréttindi. Við skorum á íslensk yfirvöld að virða réttindi Leo og foreldra hans. Við skorum á íslensk yfirvöld að  sýna mannúð, réttlæti og samkennd og taka umsókn Leo og fjölskyldu hans um alþjóðlega vernd til efnislegrar meðferðar og veita þeim skjól og vernd á Íslandi. 

#ekkiíokkarnafni

*Samkvæmt 1. gr. 1. kafla Dyflinarreglugerðarinnar er einungis hægt að sækja um vernd í einu aðildarríki í senn og það ríki sem sótt er um vernd í fyrst skal bera ábyrgð á meðferð umsóknarinnar. Samkvæmt 17. gr. reglugerðarinnar er hverju aðildarríki hins vegar heimilt að taka til meðferðar umsókn um hæli sem lögð er fram hjá því þrátt fyrir að ábyrgðin hvíli ekki á því samkvæmt viðmiðunum reglugerðarinnar.

Lesa meira:
https://www.facebook.com/semaerla/posts/10156839523499202

https://www.dv.is/frettir/2017/11/17/leo-18-manada-visad-ur-landi-asamt-foreldrum-sinum-faeddur-flotta-og-hvergi-heima-og-ma-hvergi-vera/Today: Solaris - hjálparsamtök fyrir hælisleitendur og flóttafólk is counting on you

Solaris - hjálparsamtök fyrir hælisleitendur og flóttafólk needs your help with “Kærunefnd Útlendingamála / Útlendingastofnun: Veitum Leo litla og fjölskyldu hans skjól og vernd á Íslandi”. Join Solaris - hjálparsamtök fyrir hælisleitendur og flóttafólk and 7,776 supporters today.