Petition Closed

Við skorum á innanríkisráðherra að stöðva brottvísun Ahmadi-fjölskyldunnar!

This petition had 3,147 supporters


Útlendingastofnun ætlar á næstu dögum að brottvísa Ahmadi-fjölskyldunni, sjö manna fjölskyldu frá Afganistan, sem kom til Íslands fyrir ári síðan og óskaði eftir alþjóðlegri vernd eftir að hafa flúð grimmilegar árásir talíbana. Fjölskyldan samanstendur af rígfullorðnu fólki og þremur ungum börnum, þeirra á meðal er stúlka sem var barin til óbóta af talibönum þriggja ára gömul og er nú lömuð í andliti og með skerta heyrn og sjón og bróðir hennar, ungur drengur sem hætti að tala eftir árás talíbana á heimili þeirra.

Útlendingastofnun hyggst ekki taka beiðni þeirra um alþjóðlega vernd til efnislegrar meðferðar og ætlar að senda fjölskylduna aftur til Þýskalands á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Synjunin var fjölskyldunni mikið áfall og lýsir Mir því í viðtali við Stundina hvernig hann hafi fengið hálfgert taugaáfall þegar hann heyrði af niðurstöðunni. Andlegt ástand fjölskyldunnar er alvarlegt og fjölskyldan upplifir nú mikla óvissu og öryggisleysi varðandi framtíð sína, og mega ekki til þess hugsa að vera send til Þýskalands.

Við undirrituð teljum það óásættanlegt og hreinlega ómannúðlegt að senda sjö manna fjölskyldu, samansetta af rígfullorðnu fólki og börnum sem eiga við gríðarlega erfiðleika að stríða vegna upplifunar þeirra úr landi og út í óvissuna. Ísland hefur lögfest Mannréttindasáttmála Evrópu, Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Íslensk stjórnvöld verða að axla ábyrgð og veita fjölskyldunni skjól og vernd svo þau fái tækifæri til þess að lifa eðlilegu lífi og börnin fái að blómstra. Að senda fjölskyldu í svona viðkvæmu ástandi á flótta á nýjan leik er eitthvað sem við sem manneskjur hreinlega gerum ekki auk þess sem slíkt er brot á öllum þeim gildum sem íslenskt samfélag stendur fyrir, um frið, frelsi, mannréttindi, mannúð og réttlæti fyrir allt fólk. 

Við skorum á Ólöfu Nordal, innanríkisráðherra, að stöðva brottvísun Ahmadi-fjölskyldunnar strax og krefjast þess að íslensk yfirvöld taki mál fjölskyldunnar fyrir og veiti þeim alþjóðlega vernd hér á landi sem fyrst.

 

Úr viðtali Stundarinnar:
Í kæru fjölskyldunnar til kærunefndar útlendingamála segir að stjórnvöld hafi ekki einungis heimild til að taka mál Ahmedi-fjölskyldunnar, heldur beri þeim beinlínis lagaleg skylda til þess. 

Í fyrsta lagi vegna formgalla í tengslum við fingrafaratöku og skorts á upplýsingagjöf í Þýskalandi. Fjölskyldan hafi einróma greint frá því í viðtölum hjá Útlendingastofnun að hún hafi ekki sótt um hæli í Þýskalandi heldur einungis komið þar við á leið sinni hingað til lands til þess að sækja um hæli á Íslandi.

Í öðru lagi sé þýska hæliskerfið yfirfullt og undir slíku álagi að stjórnvöldum sé ekki fært um að sinna öllum þeim sem sækja um vernd á einstaklingsgrundvelli. Þýskaland sé á meðal þeirra Evrópulanda sem taka við hvað flestum hælisleitendum, en alls sóttu 1,1 milljón manns um hæli þar í landi á síðasta ári. Við komu dveljast allir hælisleitendur í móttökumiðstöðvum í að minnsta kosti þrjá mánuði, en þær séu mjög fjölmennar, jafnvel yfirfullar, og að ekki fáist fjármunir til þess að veita hælisleitendum viðeigandi þjónustu.

Í þriðja lagi sé andlegt ástand fjölskyldunnar afar viðkvæmt eftir þá skelfilegu atburði sem urðu til þess að hún flúði heimaland sitt og það gríðarlega langa og stranga ferðalag sem hún á að baki. Nær drukknun yngsta barnsins í Laugardalslauginni í vor hafi verið enn eitt áfallið. 

Í fjórða lagi er bent á að í fjölskyldunni séu einstaklingar sem teljist í sérstaklega viðkvæmri stöðu, en í nýjum lögum um útlendinga, sem taka gildi um áramótin, segir að undir þessa skilgreiningu falli; „einstaklingar sem vegna tiltekinna persónulegra eiginleika eða aðstæðna hafa sérþarfir sem taka þarf tillit til við meðferð máls eða geta ekki að fullu eða með engu móti nýtt sér rétt eða uppfyllt skyldur sem kveðið er á um í lögum þessum án aðstoðar eða sérstaks tillits, t.d. fylgdarlaus börn, fatlað fólk, fólk með geðraskanir eða geðfötlun, aldrað fólk, þungaðar konur, einstæðir foreldrar með ung börn, fórnarlömb mansals, alvarlega veikir einstaklingar og einstaklingar sem hafa orðið fyrir pyndingum, kynfæralimlestingum, nauðgun eða öðru alvarlegu andlegu, líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi.“Today: Sema is counting on you

Sema Erla needs your help with “Ólöf Nordal: Við skorum á innanríkisráðherra að stöðva brottvísun Ahmadi-fjölskyldunnar!”. Join Sema and 3,146 supporters today.