Petition Closed

Skorað á dómara að flýta úrskurði í forsjármáli

This petition had 413 supporters


Undanfarna fjóra mánuði hefur finnsk kona dvalið hér á landi ásamt tveggja ára gömlu barni sínu og beðið bráðabirgðaúrskurðar íslenskra dómstóla í máli sem varðar lögheimili barnsins. Faðir barnsins hafði gefið leyfi sitt fyrir því að mæðginin flyttu saman til Finnlands. Síðar dró hann það leyfi til baka og í kjölfarið var barni og móður gert að snúa aftur til Íslands. Finnskir dómstólar úrskurðuðu, með hliðsjón af Haag-samningnum um brottnám barna, að barnið skyldi sent aftur til þess lands sem það hafði komið frá þar sem ekki þótti fullsannað að faðirinn hefði veitt leyfi fyrir flutningunum.

Barnið var sent til Íslands í ágúst síðastliðnum en enn hefur úrskurður ekki verið kveðinn upp í málinu. Skömmu eftir komu mæðginanna til landsins sá móðirin sig tilneydda að flytja ásamt barninu í Kvennaathvarfið eftir að barnsfaðir hennar hótaði að taka af henni barnið og vegabréf þess. Eftir komuna til Íslands hafði hún upplifað viðvarandi ofríki og ógn um ofbeldi af hálfu mannsins, sem reyndi meðal annars að þröngva henni til að flytja inn á heimili sitt.

Átök milli foreldra og ógn um ofbeldi hafa neikvæð áhrif á þroska barna og með þeim er brotið á rétti þeirra til sérstakrar verndar. Með því að draga forræðismálið á langinn fyrir íslenskum dómstólum er móðirin svipt möguleikum á því að sjá sér farborða og njóta einkalífs, sem felur í sér brot á mannréttindum hennar. Líf hennar er í Finnlandi, hún hefur ekki öryggisnet, fjölskyldu, heimili eða atvinnu hér á landi og í ljósi aðstæðna telur hún það ekki raunhæfan möguleika að flytja líf sitt hingað.

Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna skuldbindur aðildarríkin til að setja það sem barni er fyrir bestu ávallt í forgang þegar dómstólar, stjórnvöld eða löggjafarstofnanir gera ráðstafanir sem varða börn. Þar er ennfremur kveðið á um að allar ákvarðanir eða ráðstafanir yfirvalda er varða börn skuli byggðar á því sem er börnum fyrir bestu.

Í öðrum löndum Evrópu, einkum öðrum norrænum ríkjum, er farið eftir reglum um að bráðabirgðaúrskurður um lögheimili barns í forsjárdeilu skuli vera tekinn eins fljótt og auðið er eftir að barn hefur snúið aftur til landsins þar sem málið er rekið. Á Íslandi er ekki óalgengt að meðferð slíkra mála fyrir dómstólum og skyldubundin sáttameðferð foreldra hjá sýslumanni taki marga mánuði.

Við undirrituð biðlum til dómara í héraðsdómi Reykjavíkur að hafa hagsmuni barnsins að leiðarljósi í þessu máli og kveða upp bráðabirgðaúrskurð um forsjá þess án tafar.



Today: Maaria is counting on you

Maaria Päivinen needs your help with “The District Court of Reykjavik: Skorað á dómara að flýta úrskurði í forsjármáli”. Join Maaria and 412 supporters today.