Tunguhöft eru ekki tískubóla

Tunguhöft eru ekki tískubóla
Mikil vitundarvakning hefur verið á tungu-og varahöftum undanfarið. Foreldrar hafa gengið á milli lækna með óvært barn sem oft nærist illa. Oftar en ekki eru þessi börn sett á bakflæðilyf, sagt að taka út mjólkurvörur og að lokum eru þau sögð hafa ungbarnakveisu ef framangreint ber ekki árangur. Margir fá ekki greiningu fyrr en eftir einhver ár og jafnvel á fullorðinsaldri. Höft geta haft víðtæk áhrif, til dæmis á fæðuinntöku, tal og svefn. Á fullorðinsaldri geta einnig verið ýmis verkjavandamál til staðar. Þessi listi er ekki tæmandi.
Til eru rannsóknir sem sýna fram á það að íhlutun á tunguhafti og/eða varahafti ber jákvæðan árangur, sé aðgerðin framkvæmd rétt. Þrátt fyrir þessar rannsóknir og jákvæðar reynslusögur foreldra líta margir læknar og aðrir starfsmenn innan heilbrigðisgeirans á höft sem tískubólu. Vegna fjölgunar á íhlutunaraðgerðum undanfarið hefur SÍ nú til endurskoðunar hvort framlengja eigi samning við tannlækna sem feli í sér niðurgreiðslu á tilteknum aðgerðum. Einnig er Embætti Landlæknis nú með íhlutunaraðgerðir Tunguhaftssetursins til athugunar og hefur því starfsemi Tunguhaftsseturins verið stöðvuð tímabundið.
Það er ljóst að vitundarvakningin þarf að vera meiri, læknar og annað heilbrigðisstarfsfólk verður að lesa nýjustu rannsóknir og hlusta á foreldra. Það verður að vera úrlausn í boði fyrir þessa einstaklinga sem eru með höft og hafa einkenni af.
Við hvetjum SÍ og EL til þess að hlusta á foreldra og styðjum við heilshugar við bakið á tannlæknum.